Lækjarbotnar

Slide 1

Póstur


Laekjarbotnableikja

 

   tasur

Réttir og litasýning - 4. október 2015

Réttað var fimmtudaginn 24. september og voru heimtur góðar þrátt fyrir að féið vildi ekkert sérstaklega koma til byggða en það sótti nokkuð stíft upp í hlíðarnar. Okkur vantar aðeins eina tvílembda kind og vonandi kemur hún fram í seinni leit. Lömbin og kindurnar litu bara nokkuð vel út og létum við aðeins 16 lömb og 4 ær á sláturbílinn en rest var keyrð heim til að skoða betur og brennimerktum við allar hyrndar ær þegar heim var komið svo auðveldara væri að finna féið sem vant er að ganga innfrá.

Hin árlega litasýning var haldin í dag í Árbæjarhjáleigu, veitt voru verðlaun eins og áður fyrir þrjú efstu sætin í lambhrútum, gimbrum, ær með afkvæmi, hrútur með afkvæmi og svo athyglisverðasta litinn. Í ár hlaut Maja í Skinnhúfu fyrsta sætið fyrir athyglisverðasta litinn en það var morarnhöfðóttur forystuhrútur sem hún kom með. Við fórum ekki með neitt fé í ár en það réðst af skipulagsleysi og verður gert betur næsta ár.

Copy of réttir 153

Veiðivötn - 5. september 2015

Fjölskyldan fór sína árlegu ferð í Veiðivötn og dvöldu í húsunum Holt og Land eins og áður, veiddust aðeins 3 fiskar á stöng svo ekki var nú merkileg veiðin að þessu sinni en ágætis veður og alltaf gaman að fara þangað. Annar bíllinn bilaði smávægilega en allir komust þó heilir til byggða. Þá var skellt sér í lónið hérna heima og veiddir fjórir á innan við klukkutíma svo það bætti heldur betur upp veiðina þessa helgi. Tóta og Siggi skelltu sér svo til Stokkhólmar helgina eftir og fengu frábært veður, falleg borg og lúxus hótel í hjarta borgarinnar en þetta er í fyrsta skiptið sem þau heimsækja Stokkhólm og munu eflaust fara þangað aftur síðar. 

 Copy of veiðivötn 005

Fjárrag, hundasýning og gróðurhús - 28. júlí 2015

Núna eru öll folöldin fædd þetta árið og öll hafa þau hlotið nöfn sem eru eftirfarandi Nói, Neisti, Náttfari, Níl, Nútíð, Næla, Nanna og Nóta. Þetta eru þau folöld sem eru í eigu fjölskyldunnar, fleiri folöld fæddust á bænum sem annað hvort eru seld eða í eigu annarra. Sigurrós er komin heim sónuð með 35 daga gömlu fyli við Storm frá Herríðarhóli og var hún sótt í gær um leið og Viðju var skutlað undir hest en Stekkur frá Skák varð fyrir valinu þetta árið. Hann fór í flottan dóm í sumar og okkur þótti hann góður kostur fyrir hryssuna.

Þetta árið var farið með helmingi færra fé inn á afrétt en undanfarin ár, vorið fór seint af stað og allur gróður seinni til og því þótti það heppilegt í þetta sinn að keyra færri inn eftir. Helgin fór því í fjárrag ásamt öðru, Siggi og Gulli fluttu sláturfisk heim til að auðvelda sláturdagana og Nína beinhreinsaði fisk sem fer í reyk eftir helgi. Svo var grafið fyrir gróðurhúsi sem rís innan skamms í garðinum og þá verður sáð fyrir öllum sumarblómum og hægt að smella viðkvæmustu blómunum inn á veturna. Þar græddu Tóta og Siggi nokkur tré sem þurftu að víkja fyrir gróðurhúsinu og voru flutt heim að Hrauntá. Tóta sýndi Æsu á hundasýningu þessa sömu helgi og fékk aðra einkunn fyrri daginn og fyrstu einkunn seinni daginn, ágætis umsögn og stóð Æsa sig bara nokkuð vel í stórborginni innan um alla fínu hundana.

Copy 2 of nattrun 250  Copy of nattrun 151 

 

Hjalteyri og fleiri folöld - 30. júní 2015

Nína og Lísa skelltu sér til Hjalteyrar  til að sjá sýninguna "Að bjarga heiminum", en Maja vinkona þeirra var með verk þar. Verkið hennar Maju var risastór hespa sem hékk í loftinu og auðvitað var fólk hvatt til að snerta handverkið, og sumir gengur svo langt að faðma það.

Fleiri folöld eru fædd, brúnn hestur undan Vímu og Hring frá Gunnarsstöðm, hann seldist liggur við áður en hann snerti jörðina enda mjög myndarlegur hestur sem vonandi gerir nýja eiganda sinn hamingjusamann. Þrjár Púkadætur í eigu annarra fæddust hérna, ein bleikálótt og tvær sem verða líklega gráar að lit. Almennt virðist Púki gefa fíngerð og léttbyggð folöld og oftar en ekki mjög forvitin og áhugasöm um manninn.  Blíða frá Bjalla kom með sótrauða blesótta hryssu undan Púka frá Lækjarbotnum, Fluga frá Lækjarbotnum kom með stóra rauðstjörnótta hryssu undan Kóral frá Lækjarbotnum.

Nokkrar hryssur eru farnar undir nýja stóðhesta, Sigurrós fór undir Storm frá Herríðarhóli, Oddrún fór undir Hreyfil frá Vorsabæ og Sóley undir Kvist frá Skagaströnd.

Copy 2 of hjalteyri 019  Copy 2 of fol 004  

 

Nói frá Lækjarbotnum - 28. maí 2015

Sauðburði er nærri lokið og aðeins fimm ær eftir að bera, hefur gengið þokkalega en alltof mikil burðarhjálp því miður sem var nær engin í fyrra. Við höfum þó misst fá lömb og heimalingarnir eru orðnir tíu talsins, 2 fjórlembur komu og ekki hefur verið tekið saman hverstu margar þrílembur komu. Þrátt fyrir marga heimalinga þá tókst að koma mörgum lömbum undir einlembur og þar skipti miklu máli að vita hvað væri í ánum og gekk oftast upp að venja undir en þær eru auðvitað misharðar og kannski misgáfaðar. Það var þokkaleg litaflóran í ár, töluvert af mismunandi gráum lit, botnótt, golsótt og grámórautt, einnig kom algult lamb sem hefur nú ekki sést hérna í töluverðann tíma undan sæðingarhrútnum Kölska.

Þar sem sauðburði fer að ljúka þá er kominn spenningur fyrir því að járna reiðhestana og skreppa á bak, þeir bíða eflaust spenntir líka og svo er bara að krossa putta og óska eftir góðu sumri.

Þriðja folaldið er fætt og þar kom annar rauður hestur sem fékk nafnið Nói, hann er undan Sigurrós frá Lækjarbotnum og Glóðafeyki frá Halakoti, auðvitað stóðhestaefni en ekki hvað enda glæsilegur hestur.