Lækjarbotnar

Um okkur

Guðlaugur Kristmundsson var í sveit á Lækjarbotnum frá sjö ára aldri til tvítugs með hléum þó en hann vann einnig á vertíð í eyjum og svo við brúarsmíði og á byggingarkrana. Hann kynnist Nínu 1980 og bjuggu þau í Reykjavík fyrstu tvö árin, 1983 flytja þau í sveitina með frumburðinn. Gulli vann í Laxeldisstöðinni að Laugum frá árinu 2003 til 2011. Hann er heilinn á bak við hrossaræktina en hann hefur einstakt auga fyrir hrossum.

Jónína Þórðardóttir er fædd og uppalin í Reykjavík en hefur frá fyrstu tíð verið með mikinn áhuga á dýrum og var fastagestur í dýrabúðum. Það kom því engum á óvart að Nína settist að í sveit. Hennar helsti áhugi liggur í kindum og sá hún um daglega umhirðu þeirra þar til Þórunn og Siggi tóku við fénu. Skógerðin var keypt árið 2000 og hefur hún unnið við framleiðslu á skóm samhliða bústörfum.

Gulli og Nína stofnuðu fiskeldið Lækjarbotnableikju sem sérhæfir sig í eldi og verkun á bleikju sem ætluð er fyrir meðal annars ferðaþjónusta á svæðinu.

Þórhallur Guðlaugsson byrjaði í Borgarholtsskóla haustið 2009 og lauk þaðan prófi í  bílasprautun. Hans helsta áhugamál eru bílar og þá einkum gamlir bílar. Hann hefur átt marga bíla í gegnum tíðina meðal annars Bronco árgerð 1966 sem hann gerði upp, Camoro árgerð 1982 og Novu árgerð 1976. Núna er hann að gera upp Bronco árgerð 1966/1974. Hann spilar einnig á trommur og hefur lokið þriðja stigi. Þórhallur vann við bílamálun í Víkurós í Reykjavík en flutti heim að Lækjarbotnum haustið 2015 og hefur sett upp verkstæði.

Þórunn Guðlaugsdóttir hefur frá unga aldri verið með mikinn áhuga á dýrum og því lá það beinast við að hún flytti aftur í sveitina eftir að hafa menntað sig, enda kom hún oft heim í sveitina þegar færi gafst. Þórunn hefur lokið stúdents- og tanntækniprófi frá fjölbrautaskólanum við Ármúla, eftir það fluttist hún út um tíma til Danmerkur og Svíþjóðar þar sem hún lærði hestanudd og vann við tamningar. Hún lauk líffræðinámi frá HÍ, en með náminu vann hún ýmis störf eins og á leikskóla, við umönnun aldraðra, við almenn störf í fiskeldi og á Keldum við bóluefnaframleiðslu. Áhugi hennar liggur helst í hrossum og kindum og hefur dýrafjöldinn aukist eftir komu hennar heim. Þórunn hefur auk þess lokið hundaþjálfaranámi og námi í Reiðmanninum.