Nínuband
Nínuband er handspunnið band úr ull af fénu á Lækjarbotnum og angoru kanínum. Ýmist kempt saman, tvinnað eða gert band úr eingöngu fiðu eða ull. Oft er togið tekið ofan af þelinu og þelið spunnið, úr því verður mjúkt, hlýtt og fallegt band. Á haustin þegar ásetingurinn er tekinn á hús er hafist handa við að rýja og úr því er valin þau reifi sem þykja henta fyrir handspunnið band. Hvert reifi er sett í sér poka og merkt með númeri einstaklings og nafni ef gimbrin hefur hlotið það. Það eru til tveir litir á kanínum, grá og hvít, þær eru klipptar á 3 mánaða fresti. Hver kanína hefur sinn kassa sem er merktur henni þar sem fiðunni er safnað í, þannig er rekjanleikinn skýr frá dýri til bands.