Dagsferð og heyskapur - 30. júlí 2014
Skruppum í dagsferð að Hvammstanga að sjá kanínubúið hjá Birgit, en aðstaðan hjá henni er mjög snyrtileg og kanínurnar flestar settar saman í litla hópa. Aðeins fullorðin undaneldisdýr eru í sér búrum. Á heimleiðinni var svo stoppað hjá Jóhönnu á Háafelli en þar var opið hús, margt var um manninn og fullt af fallegum geitum og kiðlingum. Hún og fjölskylda hennar vinna ýmsar vörur úr geita afurðum og eru með til sölu á staðnum.
Það hefur náðs með herkjum að heyja í skepnurnar, erfitt hefur reynst að ná vel þurrum heyjum og grasið sprettur sem aldrei fyrr. Mynd af Tóta að slá garðinn en ekki er minni grasspretta þar og svo hluti af búrunum hjá Birgit á hinni myndinni.
Fjallfé og landsmót - 12. júlí 2014
Púki, Kórall og Perla frá Lækjarbotnum voru á landsmótinu, Perla hækkaði ekki í þetta sinn en hún er kominn með góðann dóm nú þegar. Kórall komst í milliriðil í A flokki, en lá svo ekki skeiðsptrettinn þannig því miður lauk hann þátttöku þar. Púki hækkaði í dómi og er hann kominn með 8,49 í aðaleinkunn. Kórall tekur á móti hryssum í Pulu og Púki tekur á móti hryssum á Lækjarbotnum og ekkert mál að bæta inn á þá hvenær sem er.
Þessa sömu helgi og landsmótinu lauk var keyrt á fjall, einn vagn og tvær ferðir farnar á bílum og fengið sér smá kaffisopa innfrá. Veðrið var virkilega fallegt og kindurnar hressar að vera loksins komnar inn á afrétt. Flest lömbin litu vel út enda búið að vera mikið grasveður undanfarið þó svo það mætti gera þurrk til að ná heyjum.
Útmokstur og fleira - 1. Júlí 2014
Það er búið að vera í nógu snúast síðustu daga, heyskapur auðvitað hafinn og nýttir voru þessir örfáu dagar sem héldust þurrir í heyskap. Hjörtur og Hjörtur komu með Tóta austur um helgina og mokuðu út úr lausgöngunni undir stjórn Sigga, en helmingur hússins var með taðgólfi í vetur og á hinum helmingnum eru rimlar. Fjórir vagnar voru keyrðir út en þetta tók um 7 klukkutíma allt í allt.
Í dag voru svo þrjár hryssur sónaðar, Sigurrós með 3 vikna fyli við Glóðafeykir frá Halakoti, Gyðja með 3 vikna fyli við Stála frá Kjarri og því miður reyndist Tara tóm en hún mun fara undir Barða frá Laugarbökkum eftir nokkra daga. Kórall frá Lækjarbotnum er kominn í milliriðil í A flokki svo það er stefnt á að sjá hann á Hellu á fimmtudag, Púki okkar verður svo á morgun í 6 vetra flokki.
Folöld - 13. júní 2014
Núna eru flestar hryssurnar kastaðar sem eiga að kasta heima hjá okkur. Viðja kom með svarta hryssu undan Púka okkar, hún verður grá að lit og er nú þegar farin að grána í kringum augun. Gyðja átti rauðstjörnótta hryssu undan Framherja frá Flagbjarnarholti og er það folald í eigu Svenna og fjölskyldu, Gyðja er nú þegar farin undir stóðhest en Svenni mun halda henni undir Stála frá Kjarri. Oddrún átti rauðstjörnótta hryssu undan Barða frá Laugarbökkum, glæsilegt merfolald sem er í eigu Gísla og fjölskyldu en þau eiga helminginn í Oddrúnu, stendur til að fara með Oddrúnu aftur undir Barða til að búa til svona glæsilegann grip fyrir næsta sumar. Víma kom með rauða hryssu undan Eld frá Torfunesi sem er í eigu Baldvins frá Torfunesi, ekki hefur verið ákveðið hvert hún fer í sumar. Hraundís og Þórdís komu báðar með jarpar hryssur undan Þórálfi frá Prestsbæ en þeim var haldið undir hann ósýndann og fór hann í vor í góðann dóm, 8,56 í aðaleinkunn.
Elísabeth borin - 30. maí 2014
Elísabeth forystukindin okkar bar um daginn tveimur fallegum lömbum, hrút og gimbur. Hrúturinn er morblesóttur með sokka á 3 fótum en gimbrin svartkrúnótt með leist. Gimbrin fékk nafnið Surtla en hrúturinn er ennþá ónefndur. Þau eru undan Höfðingja frá Bjarnastöðum en hann er í eigu Guðmundar og Sillu á Hárlaugsstöðum. Elísabeth móðir þeirra er undan Orustu frá Minni-Völlum og Karl Philip frá Sandfellshaga. Í fyrra bar Elísabeth tveimur hrútum og er annar þeirra enn hér heima, hinn fór til Auðar og Gumundar að Strandarhöfði.