Lækjarbotnar

Slide 1

Póstur


Laekjarbotnableikja

 

   tasur

Folöld og sauðburður - 25. maí 2014

Sauðburður er langt kominn og hefur hingað til gengið ljómandi vel, góð frjósemi og lítið burðarhjálp. Það hefur komið aðeins af lömbum í lit en við fengum að láni svartflekkóttan kollóttann hrút frá Ebbu og Kjartani sem hefur verið að gefa flekkótt, svo áttum við golsóttann lambhrút sem hefur gefið okkur t.d. golsótt og grámórautt. Á myndinni má sjá Tóta halda á tveimur gimbrum undan golsótta hrútnum okkar og Grábotna dóttur.

Í dag skiptust á gleði og sorg, en Hófí frá Litla-Garði gat því miður ekki komið folaldinu frá sér í köstun, við fengum dýralækni í hana sem kom folaldinu dauðu frá en þetta var stærðarinnar hryssa, rauðblesótt að lit. Hófí heilsast vel og er það fyrir öllu. Á sama tíma og Hófí komst aftur á lappir byrjaði Sóley að kasta svo það var brunað með myndavélina og náðust nokkrar myndir af nýfæddu folaldinu, þarna var komið hestfolald sem fékk nafnið Kalsi.

totioglombin1     soleyogfolald1

 

 

Púki og Perla frá Lækjarbotnum - 23. maí 2014

Púkinn okkar stóð sig vel á sýningunni að Sörlastöðum, hann hækkaði töluvert í byggingu og er kominn með 8,21 og er tiltölulega jafn, fyrir hæfileika fékk hann 8,49 og endaði með 8,38 í aðaleinkunn. Hann er því kominn inn á landsmót og auðvitað var það Jóhann Ragnarsson sem sýndi Púka en hann hefur verið hjá Jóhanni frá byrjun, þetta er í annað sinn sem Púki fer á landsmót.

Jóhann og Theódóra keyptu Perlu frá Lækjarbotnum sem tryppi og var hún einnig sýnd af Jóhanni og endaði hún með 8,21 í aðaleinkunn, 8,16 fyrir byggingu og 8,25 fyrir hæfileika. Perla er fyrsta afkvæmi Kórals frá Lækjarbotnum sem fer fyrir dóm og er þetta í annað sinn sem Perla fer á landsmót en einnig fór hún 4. vetra gömul.

 perla1    pukinn1

 

 

Fyrsta folaldið fætt - 10. maí 2014

Fyrsta folaldið fæddist skömmu fyrir skjálftann við Hestfjall, þetta er myndarlegt hestfolald sem verður grátt að lit en foreldrar hans eru Sigurrós frá Lækjarbotnum og Kjarni frá Þjóðólfshaga. Þetta er annað folald Sigurrósar en hún er fyrstu verðlauna klárhryssa undan Orra frá Þúfu og Álfheiði Björk frá Lækjarbotnum. Folaldið er gullfallegt en hefur ekki hlotið nafn ennþá, eins og fyrri ár mun vera valinn upphafsstafur sem öll folöld þessa árgangs munu byrja nafnið sitt á.

Göngugarparnir Nína og Ólafía gengu frá Húsagarði að Leirubakka á fimmtudaginn þar sem Valgerður tók á móti þeim með kaffi og kræsingar, hérna mynd af þeim í lok göngutúrar.

hestfolald1      ninaogolafia1

Reiðtúr og sauðburður - 2. maí 2014

Það var ekki slæmt veðrið sem við fengum 1. maí, hinn árlegi reiðtúr hjá okkur og fjölskyldunni á Fellsmúla var farinn þann dag og líklega besta veðrið sem við höfum fengið í mörg ár í þennann reiðtúr. Riðu Gulli á Gissur, Siggi á Prins og Þórunn á Gæa á móti þeim og hittum þau Sigurjón og Halldóru á Brúarlundi, riðið var heim að Botnum og fengið sér kaffisopa og kökur sem Nína hafði skellt í. Tveir gemlingar höfðu borið flottum fullfrískum lömbum þegar reiðmennirnir lentu á Botnum,  sauðburður er því formlega hafinn á Botnum. Þórunn fylgdi svo þeim hjónum á Loka út að Brúarlundi þar sem leiðir skyldust.

reidtur1  reidtur3

Gönguferð og kiðlingar - 1. maí 2014

Það er sko heldur betur komið vor, litlir kiðlingar eru fæddir og var kynjahlutfallið jafnt. Blíða kom með tvo kiðlinga og dætur hennar komu með eitt kið hvor. Það er mikið leikið sér og allt fjáhúsið skoðað meðan mömmurnar standa á jarminu. Kiðlingarnir eru allir orðnir spakir eftir mikið kjass og knús, svo muna þeir vonandi bara eftir okkur aftur í haust.

Nína og Ólafía hafa reynt að hittast einu sinni í viku og fara í göngutúr, um daginn fóru þær frá Húsagarði út að réttarnesi og Þórunn fékk að slást með í för að þessu sinni ásamt 2 hundum. Hætt var að rétta í Réttarnesi 1979 og núna liggja þessar fallegu réttir undir skemmdum, væri gaman að geta byggt þær upp aftur því þær eru virkilega fallegar og margir sem eiga leið þarna um hvort sem það eru göngufólk eða hestafólk.

gonguferd1