Lækjarbotnar

Slide 1

Póstur


Laekjarbotnableikja

 

   tasur

Kynbótadómar - 23. maí 2015

Salka frá Lækjarbotnum hlaut 8,11 í aðaleinkunn í kynbótadómi og þar með fyrstu verðlaun, hún hlaut 8,29 fyrir hæfileika og 7,83 fyrir byggingu. Hún var seld til Danmerkur fyrir stuttu og mun vonandi standa sig vel í nýju landi hjá nýju eigendum og óskum við þeim til hamingju með þessa flottu hryssu. 

Við tókum svo út Þulu og Ösku og var ákveðið að bíða fram á næsta vor með sýningu á þeim, báðar hafa þær gott af því að þroskast og fá því gott frí í sumar, þær eru fjögurra og fimm vetra og var byrjað á þeim báðum í vetur sem leið.

Tvö folöld eru fædd, rauður hestur undan Oddrúnu frá Lækjarbotnum og Barða frá Laugarbökkum, svo skjótt hryssa undan Hófí frá Litla-Garði og Hákon frá Ragnheiðarstöðum. Nú fara spennandi tímar í gang og miklar vonir oft bundnar við þessi kríli sem fæðast, næst í röðinni er líklega Sigurrós sem er fylfull við Glóðafeyki frá Halakoti.

niloghofi1  tula1

 

Sauðburður - 3. maí 2015

Sauðburður er hafinn, helmingurinn af gemsunum borinn og sæðingin farin að detta í gang. Fyrsta ærin sem bar kom með fjögur lömb, 3 hrúta og 1 gimbur. Hún hefur verið einstaklega frjósöm þessi ær, tvílembd gemlingsárið, þrílembd næstu tvö ár og núna fjórlembd.

Reiðhestarnir eru komnir í svokallað sauðburðarfrí en þá er enginn tími til að skreppa á bak og þeir fá mánaðarfrí frá okkur á meðan, þeim leiðist það varla og hafa það notalegt. Þórunn er búinn með fyrsta veturinn sinn í Reiðmanninum og gekk vel, bæði hún og hesturinn ánægð með góða kennslu hjá henni Þórdísi Erlu.

Salka frá Lækjarbotnum var svo að keppa um helgina í sinni fyrstu keppni og gekk líka svona vel, vann fimmganginn með 6,60 í einkunn, knapi var Jóhann Ragnarsson sem hefur tamið og þjálfað Sölku.

 salkalitilmynd

Fósturtalning og fleira - 23. apríl 2015

Það hefur verið fósturtalið í gemsunum síðustu ár hjá okkur en í ár var ákveðið að láta telja í öllu fénu og sjá hvort það hjálpi okkur í vor í sauðburðinum að vita fyrir víst hvað von er á mörgum lömbum úr hverri á. Núna fer að styttast í sauðburð en von er á fyrstu lömbunum um mánaðamótin en við fengum smá forskot á sæluna því geiturnar sem við höfum í pössun eru farnar að bera og eru komin 3 kið og beðið eftir þeirri síðustu. 

Þrjár hryssur frá okkur hafa verið í þjálfun í Pulu og voru þær teknar út um daginn, leit vel út og hver annarri fallegri en svo kemur í ljós með vorinu hverjar fara í dóm. Púki fór svo á reiðhallarsýningu á Hellu um daginn og Kórall í bæinn ásamt þjálfara sínum honum Jóa, þeim gekk báðum vel og verður Púki hjá okkur í sumar og Kórall í Pulu og taka þar á móti hryssum.

Stóðinu var smalað heim síðustu helgi og tekin tvö hestfolöld undan þeir Krapi og Kalsi. Krapi er undan Sigurrós frá Lækjarbotnum og Kjarna frá Þjóðólfshaga, Kalsi er undan Sóley og Púka frá Lækjarbotnum, það hefur verið tekin sú ákvörðun að halda þeim báðum gröðum og sjá hvernig þeir þroskast með aldrinum. 

 

Spunanámskeið - 6.apríl 2015

Það var haldið námskeið í Skinnhúfu 7-8. mars, kennari var Jacey Boggs sem kom alla leið frá Bandaríkjunum til að kenna íslenskum spunakonum  margar gerðir af spuna. Það mættu 16 konur, flestar af svæðinu en það eru um 10 konur sem hittast reglulega og spinna saman á Brúarlundi hér í sveit. Það var unnið frá morgni til kvölds og Maja bauð upp á súpu á laugardagskvöldinu. Jacey stoppaði í um viku á landinu og kíkti á jökulsárlón og skrapp á hestbak meðal annars. Hún er ein sú færasta í heimi í sínu fagi og því var mikill fengur að fá þessa færu konu til landsins og kenna íslenskum spunakonum aðrar spunaaðferðir. Það var mikil ánægja með þetta námskeið og hugur í konum að fá fleiri svona kennara til landsins.

spuni1

 

Neisti frá Lækjarbotnum - 19. febrúar 2015

Neisti frá Lækjarbotnum var felldur um daginn eftir alvarlegt fótbrot. Neisti var fæddur 1991 og var undan Emmu frá Skarði (1984) og Náttfara frá Ytra-Dalsgerði (1970). Neisti á eitt afkvæmi sem er hryssan Fluga frá Lækjarbotnum og er hún fylfull við Kóral frá Lækjarbotnum núna. Neisti skilur eftir margar góðar minningar en hann var viljugur reiðhestur, lipur, fótviss og sterkur. Þórunn fór með hann á nokkur reiðnámskeið þegar þau voru yngri og svo nutu þau samvistar við hvort annað en Neisti var alltaf í uppáhaldi hjá henni og verður erfitt fyrir annann hest að fylla þetta skarð sem Neisti skilur eftir sig. 

neistilitill