Lækjarbotnar

Jólakveðja 24.desember 2016

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, þökkum fyrir árið sem er að líða

Kær jólakveðja frá fjölskyldunni á Lækjarbotnum

 

Sauðburði nærri lokið - 22. maí 2016

Sauðburður hefur gengið alveg þokkalega þetta vorið, byrjaði með gemsaburði og þeim ám sem voru sæddar. Gemsunum gekk vel og ólíkt síðasta ári þá voru þær strax miklar mæður og mjólkuðu allflestar vel. Við fengum töluvert af lömbum undan Borkó frá Bæ, sæðingarhrút, og vonandi skilar það sér svo bara í haust sem álitlegum ásetning, fengum einnig lömb undan Dreka frá Hriflu, Heydal frá Heydalsá og Bekra frá Hesti. Elísabet kom með hrút og gimbur undan Unga frá Sandfellshaga en hún gekk lengst með af þeim ám sem voru sæddar og vorum við farin að gefa upp alla von þegar þessi tvö birtust loksins. Svo kom nokkura daga pása og þá hófs hinn eiginlegi sauðburður og eru í dag aðeins 15 eftir að bera og síðasti gemsinn bar í nótt. Geiturnar báru sínum kiðum fyrir sauðburð og gekk þar allt vel, flestallt hafrar og mikið hvítt.

 

Fyrsti kiðlingurinn - 2. mars 2016

Fyrsti kiðlingurinn kom í heiminn á hlaupársdegi okkur til mikillar hamingju. Kiðlingurinn er þó mánuð á undan okkar áætlun en mamma hans og pabbi hafa laumast í að búa hann til aðeins fyrir okkar ákveðna fengitíma. Það var stór og myndarleg hvít huðna sem hefur fengið nafnið Sunnlenska. Svo bíða okkar sex huðnur í viðbót sem bera vonandi á tilsettum tíma, Mjallhvít litla fékk ekki þann heiður að hitta hafurinn og bíður fram á næsta haust þegar hún verður orðin aðeins stærri og þroskaðari.

Copy 2 of skugga dís 010

Nýtt ár - 19. janúar 2016

Búið að vera heldur dapurt í skrifum en betra en seint en aldrei og óskum við öllum gleðilegs árs og þökkum fyrir árið 2015. Það hefur allt gengið vel, Napoleon forystuhrútur var að sinna sínum störfum í desember og fann fyrir okkur um 80 blæsma ær sem voru sæddar með góðum hrútum af sæðingarstöðinni og fengum við yfirleitt það sem beðið var um. Þórunn er nær búin að fylla hesthúsið en núna eru 8 hross komin á hús og bætast svo við 2 folöld innan skamms sem vinkona hennar keypti um daginn og fær að stinga inn hjá henni fram á vor.

Það er þó ekki allt gleði og gaman en Píla litla er fallin frá, hún var svæfð í nóvember og sofnaði hún ósköp friðsæl enda við með frábæran dýralækni hann Guðmund Bjarnason á dýralæknamiðstöðinni á Hellu.

 

Geitur og rúningur - 28. nóvember 2015

Núna er allt að gerast í geitamálum hjá okkur en hafur frá Palla og Ásu kom um daginn í 12 huðnur. Huðnurnar eru í eigu okkar, Hellis og Palla, það var hleypt nokkuð tímanlega til þeirra svo geitaburður sé lokið fyrir sauðburð. Það styttist óðum í fengitíma hjá kindunum og búið að fletta hrútaskránni nokkru sinnum í gegn og velja álitlega hrúta, bæði kollótta og hyrnda. Af hyrndum hrútum heillar mest Dreki frá Hriflu sem er Grábotna sonur og af þeim kollóttu er það Hreinn frá Heydalsá sem verður allavega notaður hjá okkur. Fullmargir stuttir hrútar virðast vera á stöðinni í ár og því takmarkast valið ansi mikið af því. Forystu ærnar og feldkindurnar voru tappaðar til að auka líkur á því að þær séu að ganga á heppilegum tíma en í ár er kominn nýr forystuhrútur á stöðina, Ungi frá Sandfellshaga 1. Feldfjárhrúturinn í ár er Lobbi frá Melhól og verða nokkrar sæddar með honum ef við fáum strá úr honum en í fyrra gekk illa að fá afgreidd strá úr feldhrútnum Gráfeld.

Það hefur verið settur á ágætisfjöldi gimbra í ár, helmingur kemur úr sæðingu síðasta árs og bar af hrúturinn Kölski frá Svínafelli 2, gimbrarnar voru vel gerðar og bollangar. Kraftur í okkar eigu skilaði góðum fjölda eins og fyrri ár en hann skilaði sér ekki heim í haust því miður, hann var undan Hvell frá Borgarfelli og góðri Lóðadóttur sem fallin er frá. Stæll frá Bjálmholti kom sterkur inn í ár og fær hann góðann fjölda áa í vetur.

Rúningi er lokið, Hjalti koma og kláraði þetta á mettíma, heppilegt hvað það var hlýtt svo kindurnar fundu lítið fyrir þessu og koma flestar vel undan ullinni.