Lækjarbotnar

Fjárrag, hundasýning og gróðurhús - 28. júlí 2015

Núna eru öll folöldin fædd þetta árið og öll hafa þau hlotið nöfn sem eru eftirfarandi Nói, Neisti, Náttfari, Níl, Nútíð, Næla, Nanna og Nóta. Þetta eru þau folöld sem eru í eigu fjölskyldunnar, fleiri folöld fæddust á bænum sem annað hvort eru seld eða í eigu annarra. Sigurrós er komin heim sónuð með 35 daga gömlu fyli við Storm frá Herríðarhóli og var hún sótt í gær um leið og Viðju var skutlað undir hest en Stekkur frá Skák varð fyrir valinu þetta árið. Hann fór í flottan dóm í sumar og okkur þótti hann góður kostur fyrir hryssuna.

Þetta árið var farið með helmingi færra fé inn á afrétt en undanfarin ár, vorið fór seint af stað og allur gróður seinni til og því þótti það heppilegt í þetta sinn að keyra færri inn eftir. Helgin fór því í fjárrag ásamt öðru, Siggi og Gulli fluttu sláturfisk heim til að auðvelda sláturdagana og Nína beinhreinsaði fisk sem fer í reyk eftir helgi. Svo var grafið fyrir gróðurhúsi sem rís innan skamms í garðinum og þá verður sáð fyrir öllum sumarblómum og hægt að smella viðkvæmustu blómunum inn á veturna. Þar græddu Tóta og Siggi nokkur tré sem þurftu að víkja fyrir gróðurhúsinu og voru flutt heim að Hrauntá. Tóta sýndi Æsu á hundasýningu þessa sömu helgi og fékk aðra einkunn fyrri daginn og fyrstu einkunn seinni daginn, ágætis umsögn og stóð Æsa sig bara nokkuð vel í stórborginni innan um alla fínu hundana.

Copy 2 of nattrun 250  Copy of nattrun 151