Feldfé og utanlandsferð - 27.október 2014
Nína, Lísa, Anna, Katrín og Silla fóru um daginn með þeim Sveini Hallgrímssyni og Einari Þorsteinssyni að skoða feldfé hjá þeim Guðna í Melhól og Kristbjörgu á Þykkvabæjarklaustri. Sveinn kenndi þeim réttu handtökin við dóm á svona skepnum og keypti Lísa nokkrar af hjónunum í Bakkakoti sem Kristbjörg mun fóstra fyrir hana. Þetta þótti merkisdagur því Landinn kom á staðinn og tók þetta allt saman upp.
Svo var það föngulegur hópur sem yfirgaf landið og heimsóttu skosku hálöndin en Sigga systir Nonna og maðurinn hennar Jan höfðu skipulagt vikuferð fyrir hópinn. Það voru Anna, Eiður, Lísa, Óli, Holla, Nonni og Botna hjónin sem fóru út í þessa ferð, flogið til Edinborgar og þaðan var keyrt á milli hinna ýmsu staða, meðal annars voru skoðuð lífræn bú með ær, kjúklinga og svín, whisky verksmiðja, handverksfólk með ull og safnara sem söfnuðu meðal annars David Brown traktorum. Fengu að prufa þjóðarrétt skota en hann er ekki ósvipaður blóðmör sem við þekkjum til. Vel heppnuð ferð í alla staða og allir kátir glaðir þegar heim var komið.
Ásetningslömbin eru rúin og komin á gjöf, þetta eru um 40 lömb sem voru sett á, einn hyrndur lambhrútur og svo var farið til Huldu og Tyrfings og verslað sér 2 kollótta lambhrúta. Við erum nokkuð sátt með hópinn okkar og eru þau öll farin að fóðrast vel. Tvö forystulömb eru í hópnum, þau Surtla og Blesi, Surtla er strax farin að skammast í hinum lömbunum og stjórna hópnum en hrúturinn er aðeins hógværari í sínum hóp.