Lækjarbotnar

Smölun - 19. september 2014

Við smöluðum heimahagana um daginn og fengum góða hjálp við það, en foreldrar hans Sigga komu og einnig bróðir hans og fjölskylda. Þetta var því vel mannaður hópur sem fór af stað, Gulli á Lýsing, Siggi á Gissur og Tóta á Neista, Markús og Dýa á sínum hestum. Þórhallur var á sínu fjórhjóli sem hefði nú kannski bara dugað því háværara fjórhjól finnst varla, Óskar var einnig á fjórhjóli en það var nú aðeins minni óhljóðin í því. Nína, Sigga og krakkarnir gengu svo með girðingunni svo kindurnar myndu ekki taka strauið til baka. Nanna fékk að koma með í þessa smölun og stóð sig mjög vel eigandanum til mikillar ánægju en hún hefur reynst vel sem rekstrarhundur og er mjög yfirveguð í vinnu. Það vantaði nú samt töluvert af lömbum sem koma nú væntanlega í leitirnar þegar nágrannahagarnir verða smalaðir, en 31 gimbur voru teknar frá og 1 hrútur sem voru dæmd og mæld á mánudeginum. Mælingarnar komu ágætlega út en tvær systur stóðu uppúr undan Bekra frá Hesti og Blettsdóttur, svo var ásetningshrúturinn undan Rafal frá Úthlíð og kind frá Hemlu. Það var því hægt að grisja hópinn og fengu 25 gimbrar ásetningsstimpil, svo kemur í ljós hvað kemur af fjalli en Siggi fór í dag og vonandi mun heimtast vel.

 nannalitilmynd