Lækjarbotnar

Folöld og sauðburður - 25. maí 2014

Sauðburður er langt kominn og hefur hingað til gengið ljómandi vel, góð frjósemi og lítið burðarhjálp. Það hefur komið aðeins af lömbum í lit en við fengum að láni svartflekkóttan kollóttann hrút frá Ebbu og Kjartani sem hefur verið að gefa flekkótt, svo áttum við golsóttann lambhrút sem hefur gefið okkur t.d. golsótt og grámórautt. Á myndinni má sjá Tóta halda á tveimur gimbrum undan golsótta hrútnum okkar og Grábotna dóttur.

Í dag skiptust á gleði og sorg, en Hófí frá Litla-Garði gat því miður ekki komið folaldinu frá sér í köstun, við fengum dýralækni í hana sem kom folaldinu dauðu frá en þetta var stærðarinnar hryssa, rauðblesótt að lit. Hófí heilsast vel og er það fyrir öllu. Á sama tíma og Hófí komst aftur á lappir byrjaði Sóley að kasta svo það var brunað með myndavélina og náðust nokkrar myndir af nýfæddu folaldinu, þarna var komið hestfolald sem fékk nafnið Kalsi.

totioglombin1     soleyogfolald1